Andakíll


Andakíll

Hvanneyri var fyrst friðlýst sem búsvæði árið 2002 en árið 2011 var búsvæðið stækkað og fékk nafnið Andakíll. Markmið friðlýsingarinnar er að stuðla að varðveislu og viðhaldi náttúrulegs ástands fjölbreytts votlendis og búsvæða fjölmargra fuglategunda. Andakíll er Ramsar-svæði, sem þýðir að öll nýting á svæðinu skal vera með sjálfbærum hætti og vernda votlendi svæðisisn sem er mikilvægt lífsvæði fyrir fugla á lands- og heimsvísu.  Einnig er með friðlýsingunni tryggt aðgengi almennings að landsvæðinu til náttúruskoðunar og fræðslu. Ennfremur er markmið friðlýsingarinnar að tryggja möguleika á rannsóknum og vöktun á lífríki svæðisins með áherslu á búsvæði fugla og votlendi.


Hvar er Hvanneyri?

Hvanneyri er í sveitarfélaginu Borgarbyggð í Borgarfirði. Mörk friðlýsta svæðisins ná yfir jörðina Hvanneyri frá jarðamörkum sem liggja frá Stórastokk í Vatnshamravatn og þaðan um Ausulæk yfir í Andakílsá miðja og út í Hvítá. Stærð friðlýsta svæðisins eru rúmlega 3085,3 ha.

Áhugavert

Jörðin á Hvanneyri er mikilvægt búsvæði blesgæsar en talið er að um 10% grænlenska stofnsins hafi þar viðkomu jafnt vor og haust. Jörðin er friðlýst í samræmi við samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971), samninginn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) og samninginn um líffræðilega fjölbreytni (Rio de Janeiro 1992).

Náttúruminjar

Friðlandið býr yfir fjölmörgum vistkerfaþjónustum. Þar má t.d. nefna frjóvgun villtra plöntutegunda og viðhald á líffræðilegum og erfðafræðilegum breytileika en svæðið er búsvæði fyrir villtar plöntur og dýr.

Nytjuð tún og flæðiengi framleiða fóður og lífrænan áburð sem viðheldur lífræðilegri fjölbreytni svæðisins. Hvanneyrarjörðin býr yfir mikilli fjölbreytni í landslagi og landslagsþáttum og býður upp á ýmsa afþreyingarmöguleika. Breytileiki í náttúrufari hefur mikið vísinda- og menntunarlegt gildi og er friðlandið mikið nýtt við kennslu. Mikilvægar stýriþjónustur er að finna á Hvanneyri  og má þar nefna að gróðurþekja hefur mikilvægu hlutverki að gegna í stýringu afrennslisvatns jafnt af landi sem úr ám , ásamt því að vistkerfin veita náttúrulegar varnir gegn jarðvegsrofi, halda við gæðum jarðvegs og brjóta niður úrgangsefni.

Á Hvanneyri er að finna óvenjustór flæðiengi sem ná yfir um annað hundrað hektara. Sökum stærðar og frjósemi engjanna þá var það ekki einungis Hvanneyrarjörðin sem hafði ítök í engjunum en einnig bæirnir í kring s.s. Lundareykjadal og Norðurárdal. Einnig eru til heimildir um að bæir úr Húnavatnssýslum hafi sótt í engjarnar og sannar það hversu gríðarlegt forðabúr þær voru.  Samkvæmt heimildum þá hafa flæðiengjarnar breyst töluvert síðustu 50 árin. Landið hefur þornað og risið og er það nú ekki nema í allra stærstu flóðum sem vætlar upp á fitjarnar, en áður fyrr flæddi yfir þær allar. Engjarnar eru kvikar og háðar breytingum. Mikil áhersla hefur verið lögð á sambandið á milli friðunar og nýtingar engjanna og votlendisins allt í kringum Hvanneyri. Nýtingin hefur viðhaldið gróðurfarslegum breytileika sem hefur bein áhrif á breytileika fuglastofna á svæðinu.

Sýnileiki varpfugla er mikill í friðlandinu. Taldar hafa verið um 40 varpandartegundir innan friðlandsins og vitað er að aðrar 6 tegundir verpa í nágrenninu. Auðugt fuglalíf er jafnt á leirum sem og á flæðiengjum svæðisins. Fuglar sem verpa innan friðlandsins eru m.a. brandönd (mynd hér að ofan), álft, jaðrakan, haförn (mynd hér til hliðar), brandugla, auðnutittlingur, hrafn, stari, kría og óðinshani. Búsvæðavernd blesgæsarinnar nær yfir Hvanneyrarjörðina og er nýtingarmáti blesgæsarinnar sá að hún nærir sig á túnunum, nýtir Vatnshamravatn til baða og á svo næturstað niðri á fitjunum. Brandendur hafa verið taldar á nokkurra ára tímabili og hefur heildarfjöldinn verið um 400 til 500 fuglar að hausti. Hlutfall unga er hátt eða um 40-48%. Brandendurnar verpa í Borgarvogi, Grímólfsvík, við Einarsnes, Ferjubakka, meðfram Grímsá og Hvítá, Andakílsá og Langá, allt vestur um Mýrar að Löngufjörum.

Alls hafa verið taldar um 132 háplöntur í Hvanneyrarfriðlandinu og þar af um 20-25 starategundir. Einnig hafa um 50 tegundir af mosa verið taldar ásamt um 25 tegundum af fléttum.

Myndin er frá Andakíl

Menningarminjar

Flæðiengjarnar hafa haft mikil áhrif á mannlíf á Hvanneyri. Hægt er að færa rök fyrir því að uppbygging Búnaðarskóla, síðar Bændaskóla og svo LBHÍ megi að miklu eða öllu leyti rekja til engjanna og eru þær líklega ástæða þess að farið var að búa á svæðinu. Engjarnar eru afar mikilvægar í náttúrufari svæðins og það sama má segja um nýtingu þeirra. Til merkis um hin miklu flóð er varnargarður meðfram fitinni. Talið er að enn frekari breytingar eigi eftir að eiga sér stað á komandi árum og áratugum með breyttri gróðursamsetningu og tilfærslu árinnar vestar.  Mörg örnefni eru á svæðinu sem vísa til hinnar gömlu búfjárhirðingar sem tíðkaðist á árum áður s.s. Selið, Stekkjarholtin, Nátthagi en þar er rétt frá þeim tímar er ær voru mjólkaðar og þeim haldið á nóttunni í nátthaga. Norðan við Nátthaga eru tóftir og þar nálægt er hóll er nefnist Ásgarður en þar stóð samnefndur bær. Þar undir leynast væntanlega rústir bæjarins.

Í votlendinu eru minjar sem tengjast starfi skólans. Þar eru mjög ríkulegar minjar um áveitur og stjórnun á nýtingu engjanna en eftir árið 1910 var farið að gera mikið af því að miðla og hafa stjórn á allri vatnsstöðu með áveitu, sem er ævaforn aðferð við ræktun. Þessi búháttur, (engjaræktun) er notaður hér fram yfir 1950 og eru minjar um það sem var megin inntak ræktunar íslenskra bænda á framanverðri 20.öld.  Þetta eru svæði sem eru afskaplega merkileg því þau eru millistig frá hreinni úthaganýtingu yfir í það að rækta engjarnar.

Í Kinninni neðan við Ásgarð og gamla skólastjórahúsið er að finna svokallaðar beðasléttur. Landið var ræktað í beðum, sem á sér fornar erlendar rætur og teygir sig yfir í nútímann yfir í skurðaskiptu túnin, sem var liður í því að framræsa vatni.  Þetta eru mjög ríkulegar minjar.  Hluti af þessari sléttun sem þar fór fram var til þess að þurrka heyið sem sótt var niður á engjarnar.  Þetta sýnir ræktunarmynstur fyrri tíma.  Í gjörvöllu landinu má lesa í landið ræktunartækni upp eftir 20.öldinni allri.  Frá beðasléttunum, í gegnum engjaræktunina og þar til að menn fara að reyna að þurrka mýrarnar. 

Það sem breytti allri umgengni á Hvanneyrarjörðinni var þjóðvegurinn, en með honum verður landleiðin aðalleiðin heim að Hvanneyri. Áður var sjóleiðin ávallt farin – sem skýrir hvers vegna húsin snúa eins og þau gera – í dag er aðkoman aftan að húsunum. 

Uppi á hólnum við hlið kirkjugarðsins má ennþá greina grunn gömlu kirkjunnar.  Nýja kirkjan var vígð árið 1905.

Aðgengi

Hvanneyri er í u.þ.b 12 km fjarlægð frá Borgarnesi. Ekkert er því til fyrirstöðu að heimsækja friðlandið allt árið um kring. Á svæðinu er starfræktur Landbúnaðarháskóli og er mikil byggð í kringum hann. Fuglaveiðar eru bannaðar í friðlandinu. Mannvirkjagerð og jarðrask á Hvanneyrarengjum er háð leyfi Umhverfisstofnunar.