Losun Íslands

Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Change - UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Losunarbókhald Íslands með gróðurhúsalofttegundir er bókhald um bæði losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti og er unnið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Losuninni er skipt niður í flokka eftir því hver uppspretta losunarinnar er, orka, iðnaðarferlar og efnanotkun, landbúnaður, úrgangur og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (Landuse, landuse change and forestry - LULUCF). Losun sem frá LULUCF fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt eða endurheimt votlendis er talin fram undir flokknum LULUCF og getur Ísland talið sér þá losun til tekna á móti losun gróðurhúsalofttegunda í öðrum flokkum.

Árið 2016 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 4.669 kílótonn af CO2-íg. (án losunar frá LULUCF), sem er 1,7% samdráttur í losun frá árinu 2015 og 28,5% aukning frá árinu 1990. Mest var losunin árið 2008 eða 5.269 kílótonn af CO2-íg.

Þegar horft er á heildarlosun árið 2016, án LULUCF, má sjá að mest losun kemur frá iðnaðarferlum, næstmest frá orku, svo landbúnaði og minnst losun frá úrgangi. Frá árinu 1990 til 2015 hefur hlutfall losunar frá iðnaðarferlum aukist úr 26% til 42%, hlutfall losunar frá orku hefur minnkað úr 51% í 40% á sama tímabili. Nánari upplýsingar um losun frá hverjum flokki má sjá undir flipanum „Losun eftir flokkum“.

 

Í losunarbókhaldinu er losun gróðurhúsalofttegunda er gefin upp í CO2-íg., en er einnig gerð grein fyrir því hversu mikil losun er af hverri gróðurhúsalofttegund. Gróðurhúsalofttegundirnar sem gefnar eru upp í bókhaldinu eru CO2, CH4, N2O, PFC, HFC, SF6 og NF3.

Gróðurhúsalofttegundirnar hafa mismunandi áhrif á hitastig í andrúmsloftinu. Þegar heildarútstreymi gróðurhúsalofttegundar (GHL) er metið er hverri lofttegund gefinn tiltekinn stuðull sem miðast við þessi ólíku áhrif. Þessi stuðull kallast hlýnunarmáttur og ræðst annars vegar af hlutfallslegum samanburði á áhrifum hennar á hitastig jarðar og hins vegar af áhrifum CO2 á tilteknu tímabili. Magn GHL er því gefið upp í CO2-ígildum. Nánar um gróðurhúsalofttegundirnar má lesa hér.

Hlýnunarmáttur gróðurhúsalofttegunda

 

Gróðurhúsalofttegund

Efnaformúla

Hlýnunarmáttur (GWP)

Koldíoxíð

CO2

1

Metan

CH4

25

Glaðloft

N2O

298

Brennisteinshexaflúoríð

SF6

23.900

 

Flúorkolefni

PFC

 

PFC 14

CF4

7.900

PFC 116

C2F6

12.200

PFC 218

C3F8

8.830

 

Vetnisflúorkolefni

HFC

 

HFC-23

CHF3

14.800

HFC-32

CH2F2

675

HFC-125

C2HF5

3.500

HFC-134a

C2H2F4 (CH2FCF3)

1.430

HFC-143a

C2H3F3 (CF3CH3)

4.470

HFC-152a

C2H4F2 (CH3CHF2)

124

HFC-227ea

C3HF7

3.220

Í samræmi við nýjar kröfur Evrópusambandsins (ESB) er teymi loftslags- og loftgæða hjá Umhverfisstofnun að vinna spá um heildarlosun Íslands til framtíðar. Til að vinna þessa spá þarf Umhverfisstofnun að taka saman spár, stefnur og aðgerðir sem geta haft áhrif á losun og bindingu Íslands. 
 
Til að uppfylla kröfur ESB hefur loftslags- og loftgæðateymið verið að hanna veflausn í samvinnu við breskt ráðgjafafyrirtæki, Aether, þar sem upplýsingum um stefnur og aðgerðir sem varða losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum verður safnað saman. Umhverfisstofnun framkvæmir síðan útreikninga og greiningar til að meta m.a. töluleg áhrif af tilteknum stefnum og aðgerðum á losun. Markmiðið með þessari vinnu er að sjá hvort núverandi aðgerðir dugi Íslandi til að standast skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030. Það eru margar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar að vinna mikilvæga vinnu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
 
Til þess að fá sem heildstæðustu yfirsýn yfir þær stefnur og aðgerðir sem unnið er að er mikilvægt að sem flestir komi að þessu verkefni. Umhverfisstofnun hefur því skipulagt vinnustofur ásamt fulltrúum frá bresku ráðgjafastofunni Aether dagana 23.-24. maí næstkomandi . Þar verður unnið að því að safna saman öllum þeim verkefnum  sem varða spár, stefnur og aðgerðir um losun frá tilteknum málaflokkum og skoðað í sameiningu hvernig er hægt að meta áhrif sem aðgerðirnar geta haft í för með sér. Ný veflausn þar sem þessi vinna mun fara fram verður kynnt af Aether.
 
Umhverfisstofnun mun einnig halda almennan opnunarfund um verkefnið. Hann verður haldinn milli 9:00-10:30, þann 23. maí, í Fundarherbergi D á Hilton Reykjavík Nordica. Á þeim fundi verður farið almennt yfir markmiðin með verkefninu og vinnuna sem er fram undan. Fundirnir munu allir fara fram á ensku.

23. maí
Hilton Reykjavík Nordica
Fundarherbergi F+G

09:00-10:30 - Almennur opnunarfundur
09:00 – 09:10  Opnunarerindi - Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
09:10 – 09:20 Stefna og aðgerðir Íslenskra stjórnvalda - Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri skrifstofu hafs, vatns og loftslags hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
09:20 - 09:30 Losun og skuldbindingar Íslands – Vanda Úlfrún Liv Hellsing, teymisstjóri teymis loftslags og loftgæða hjá Umhverfisstofnun.
09:30 – 10:20 National Systems and Reporting Requirements Portal - Rosie Brook & Tim Williamson sérfræðingar frá bresku ráðgjafastofunni Aether (fer fram á ensku).

Vinnustofur
Allar vinnustofur fara fram í húsakynnum Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24 Áhugasamir þátttakendur eru beðnir um að skrá sig hér
Athugið að vinnustofurnar fara fram á ensku


23. maí
13:00-14:30 Úrgangur
15:00-16:30 Iðnaðarferlar og efna-/vörunotkun


24. maí
09:00-9:55 Orka - Almennt
10:00-10:55 Orka - Vegasamgöngur
11:00-11:55 Orka - Sjávarútvegur
13:30-15:00 Landbúnaður
15:00-16:30 Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF)

 

Ef þú sérð þér ekki fært að mæta á fundina, en veist af eða ert að vinna að verkefnum sem tengjast spám, aðgerðum eða stefnum í loftslagsmálum, þá megið þið einnig endilega deila þeim með okkur á ust@ust.is merkt „loftslagsverkefni“.

Kyótó-bókunin

Fyrsta skuldbindingatímabilið 2008-2012 (CP1)

Uppgjöri á losunarheimildum fyrir fyrsta viðskiptatímabil Kýótó-bókunarinnar, sem fyrir árin 2008– 2012 lauk í upphafi árs 2016. Ísland stóð við skuldbindingar sínar á tímabilinu. Á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar frá 2008 til 2012 námu losunarheimildir Íslands tæplega 18.524 kt CO2-íg. Samkvæmt sérstakri ákvörðun Loftslagssamningsins (oft nefnd „íslenska ákvæðið“) er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum.

Heildarlosun Íslands á tímabilinu var rúmlega 23.356 kt. CO2-ígilda. Ísland gerði upp tæplega 20.099 þúsund losunarheimildir og rúmlega 3.257 þúsund voru tilkynntar sérstaklega undir íslenska ákvæðinu. Upplýsingar um uppgjör Íslands sem og annarra ríkja má finna á heimasíðu Loftslagssamningsins.

Annað skuldbindingatímabilið 2013-2020 (CP2)

Samkvæmt Doha-breytingunni (samþykkt af Íslandi 7. október 2015) skal Ísland ekki losa meira en 80% af 1990 losun sinni árið 2020 til að uppfylla skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (2013-2020). Skuldbindingar Kýótóbókunarinnar ná ekki til losunar frá alþjóðaflugi né losunar frá landnotkun, breyttri landnotkun eða skógrækt (LULUCF), þó svo að gerð sé grein fyrir þeirri losun í losunarbókhaldi Íslands. Aðildaríki geta þó talið sér bindingu kolefnis vegna LULUCF til tekna að einhverju leyti.

Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliðasamning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015). Þar segir að Ísland skuli tryggja að:

…öll samanlögð losun þess af mannavöldum á öðru skuldbindingartímabilinu í koltvísýringsígildum á gróðurhúsalofttegundum, sem tilgreindar eru í viðauka A við Kýótóbókunina, frá upptökum og viðtökum sem falla undir Kýótóbókunina en falla ekki undir gildissvið tilskipunarinnar um viðskiptakerfi fyrir losunarheimildir fari ekki yfir úthlutað magn sem sett er fram í skilmálunum um sameiginlegu efndirnar.

Samkvæmt samningi Íslands og ESB um sameiginlegar efndir hefur Ísland fengið úthlutað 15.327.217 heimildum (AAU) en ein heimild samsvarar einu tonni af CO2-íg. Þetta jafngildir losun á rúmlega 15.327 kt. af CO2-íg. á tímabilinu 2013-2020 utan viðskiptakerfis ESB. Auk AAU heimilda hefur Ísland heimild til að nota bindingareiningar (RMU) í samræmi við. 3.gr. 3. og 4. mgr. Kýótóbókunarinnar. Á árunum 2013-2016 var losun sem fellur undir skuldbindingar Íslands, án viðskiptakerfis ESB, 23.150 kt CO2-íg. og bindingareiningar 1.457 kt CO2-íg. Ísland er því búið að nota 66% af úthlutuðum heimildum sínum(10.118 þúsund heimildir) og á því 5.201 þúsund úthlutuðar heimildir eftir fyrir árin 2017-2020. Nánar um bindingareiningar á öðru tímabili Kyótó bókunarinnar má sjá undir „Landnotkun“ flipanum.

Frekari upplýsingar um Kýótó-bókunina má finna hér.

Parísarsáttmálinn

Þann 4. nóvember síðastliðinn gekk Parísarsáttmálinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í gildi á heimsvísu. Samningurinn var samþykktur í París 12. desember 2015 og undirritaður af Íslandi 22. apríl 2016, fullgilltur af Alþingi 19. september 2016.

Parísarsáttmálinn er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC). Markmið samningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar, en jafnframt skuli leitast við að halda hækkuninni undir 1,5°C. Að auki miðar samningurinn að því að efla getu ríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun og stuðningi þróaðra ríkja við þróunarríki og viðkvæmari lönd.

Samkvæmt sáttmálanum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svonefnd landsákvörðuð framlög (Nationally Determined Contributions – NDC´s). Sáttmálinn setur lagalegan ramma utan um skuldbindingar ríkjanna og nær til aðgerða eftir árið 2020, en þá lýkur tímabili skuldbindinga ríkja í Kýóto-bókuninni. Ísland skilaði upplýsingum um sín landsákvörðuðu framlög Íslands til Loftslagssamningsins 30. júní 2015, þar sem stefnt er að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildaríki ESB og Noreg.

Sameiginleg markmið með ESB og Noregi

Framkvæmdastjórn ESB birti í júlí 2016 tillögu að reglugerð um bindandi árlegan samdrátt aðildaríkjanna á losun gróðurhúsalofttegunda á árunum 2021 til 2030 og er hluti af regluverki ESB sem innleiðir skuldbindingar ESB samkvæmt Parísarsamningnum. Regluverkið mun ekki ná til losunar frá flugstarfsemi þar sem Parísarsamningurinn tekur ekki til losunar frá alþjóðlegri flugstarfsemi. Stefnt er að því að takmarka losun frá flugstarfsemi með tilkomu alþjóðasamkomulags Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

Samkvæmt tillögu ESB skal ná markmiðum um 40% samdrátt í losun árið 2030 miðaða við 1990, með því að draga úr losun um:

  • 43% árið 2030 frá iðnaði er fellur undir viðskiptakerfi ESB , miðað við losun árið 2005.
  • 30% árið 2030 frá uppsprettum sem ekki falla undir gildissvið viðskiptakerfis ESB, miðað við árið 2005.

Árið 2016 féll 38% af losun Íslands (án LULUCF) undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Nánar um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og hvernig losun Íslands skiptist milli viðskiptakerfisins og annarrar losunar má sjá hér.

 

Skuldbindingar Íslands

Losunin sem fellur ekki undir viðskiptakerfi ESB hefur dregist saman um 7% síðan 2005. Losunin var mest árið 2007 og dróst svo saman í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Síðan 2012 hefur losun Íslands verið nokkuð stöðug þar sem aukin losun vegna vaxandi ferðamannastraums og aukningu hagvaxtar hefur jafnast út með aukinni viðleitni við að draga úr losun. Helstu uppsprettur losunar á gróðurhúsalofttegundum sem falla ekki undir viðskiptakerfi ESB eru í orkugeiranum (vegasamgöngum og fiskiskipum), og í landbúnaðinum (iðragerjun, nytjajarðvegi og meðhöndlun húsdýraáburðar). Nánari upplýsingar um losun frá mismunandi flokkum má finna hér.

 

Það er næsta víst að skuldbindingar Íslands og Noregs munu fara í stórum dráttum eftir þeim reglum og viðmiðum sem er að finna í tillögum ESB. Tillögurnar eru í vinnslu innan ESB og ljóst er að ESB mun ekki ganga frá formlegu samkomulagi við Ísland og Noreg fyrr en að því ferli loknu. Þetta þýðir að líklega verður samkomulag við ESB sennilega ekki í höfn fyrr en seinni hluta 2018, byrjun 2019. Hlutfall aðildaríkja ESB í markmiðum um 30% minni losun árið 2030, miðað við 2005, má sjá hér.

Árið 2005 kom Evrópusambandið á fót viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda í tengslum við mótvægisaðgerðir að hálfu ESB samkvæmt Kyoto-bókuninni. Viðskiptakerfið, í almennu máli nefnt ETS (stendur fyrir Emission Trading System). Kerfið er svokallað „cap and trade“ kerfi þar sem takmörk eru sett á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstraraðilum sem falla undir viðskiptakerfið. Nánar um viðskiptakerfið má lesa hér.

Ísland hefur sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030, miðað við árið 1990 með ESB og Noregi. Samkvæmt tillögu ESB skal ná því markmiði með því að draga úr losun um:

  • 43% árið 2030 frá iðnaði er fellur undir viðskiptakerfi ESB, miðað við losun árið 2005.
  • 30% árið 2030 frá uppsprettum sem ekki falla undir gildissvið viðskiptakerfis ESB, miðað við árið 2005.
 

Losunin sem fellur undir viðskiptakerfi ESB hefur aukist um 108% á tímabilinu 2005 til 2016, en dróst aðeins saman á milli 2015 og 2016 (um 2%). Helstu uppsprettur GHL sem hafa verið undir viðskiptakerfi ESB á tímabilinu 2005-2016 eru CO2 og PFC losun frá álverunum og CO2 losun frá kísil- og kísilmálmframleiðsla. Losunin frá kísilmálmframleiðslu hefur verið nokkur stöðug síðan 2005. Hins vegar hefur losunin frá álframleiðslu aukist talsvert (eða um 204%) með aukinni framleiðslugetu hjá starfandi álverunum og gangsetningu hins þriðja. Jarðeldsneytisbruni vegna staðbundins framleiðsluiðnaðar fellur einnig undir viðskiptakerfi ESB, en eins og má sjá á myndinni er þetta hlutfalslega lítil losun sem fer minkandi (minna en 1% losunarinnar sem fellur undir viðskiptakerfi ESB á árinu 2016).

 

Samkvæmt skuldbindingum Íslands skal losun gróðurhúsalofttegunda er skipt niður á flokka eftir uppsprettum í samræmi við skiptingu Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC). Flokkarnir eru; orka, iðnaðarferlar og efnanotkun, landbúnaður, úrgangur og landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF). Losun frá LULUCF fellur ekki undir skuldbindingar Íslands.

Ef losun Íslands er skoðuð eftir uppsprettum þeirra, án LULUCF, sést að mest losnar af gróðurhúsalofttegundum frá iðnaðarferlum, næst mest frá orku, svo landbúnaði og minnst frá meðhöndlun úrgangs. Hlutfall losunar frá iðnaðarferlum af heildarlosun Íslands, án LULUCF, jókst frá 26% árið 1990 í 42% árið 2016.

 

Losun frá orku

Þróun í orku

1990-2016: -1%
2005-2016: -18%
2015-2016: -1%

Aðal gróðurhúsalofttegundin sem losnar frá orkugeiranum er CO2, sem hefur verið 97-98% af losun geirans síðan 1990. N2O losun hefur verið 2-3%, og losun CH4 hefur verið minni en 0.5% (í CO2-íg.). Árið 2016 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda sem féll undir orku flokkinn 1856 kt. CO2-íg., eða 40% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. Losun frá orku dróst því saman um tæplega 1% frá 1990, sem þá var 1867 kt. CO2-íg. Samgöngur eru megin uppspretta losunar í orkuflokknum, og samsvaraði losunin 923 kt. CO2-íg. árið 2016 eða 50% af losuninni. Fiskiskip er næst stærsta uppsprettan og var losunin 521 kt. CO2-íg. eða 28% af heildarlosuninni frá orku árið 2016.

Þó svo að jarðefnaeldsneyti sé ekki orkugjafinn í jarðvarmavirkjunum þá losna gróðurhúsalofttegundir frá jarðvarmavirkjunum og árið 2016 var heildarlosunin 152 kt. CO2-íg. frá jarðvarmavirkjunum eða 8% af losuninni frá orku. Losun frá jarðvarmavirkjunum hefur aukist um 147% frá árinu 1990, en þá var losunin 62 kt. CO2-íg.

 

Losun frá iðnaðarferlum og efnanotkun

Þróun í iðnaðarferlum

1990-2016: +106%
2005-2016: +51%
2015-2016: -2%

Iðnaðarferlar og efnanotkun var uppspretta 42% af losun Íslands, án LULUCF, eða 1.974 kt. CO2-íg., sem er 106% aukning í losun frá árinu 1990, þegar hún var 958 kt. CO2-íg. Stærsti hluti losunarinnar er tilkomin vegna framleiðslu á hráefnum, málmum o.fl., þegar CO2 og aðrar gróðurhúsalofttegundir eins og N2O og PFC losna. Einnig losnar HFC, sem er notað í stað ósóneyðandi efna og SF6 frá rafbúnaði. Árið 2016 var 90% af losun frá iðnaðarferlum vegna framleiðslu málma, og þá sérstaklega álframleiðslu.

Stærsti hluti losunar, eða 90%, frá iðnaðarferlum féll undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir árið 2016, sem felur í sér að rekstraraðilar greiða eina losunarheimild fyrir hvert tonn af CO2-íg. sem þeir losa.

 

Losun frá landbúnaði

Þróun í landbúnaði

1990-2016: -4%
2005-2016: +10%
2015-2016: -0,1%

Losun frá landbúnaði árið 2016 var 602 kt. CO2-íg. eða 13% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. 99% af losun frá landbúnaði er vegna losunar á CH4 og N2O. 85% af CH4 losununni er tilkomin vegna iðragerjun og 78% af N2O losuninni vegna nytjajarðvegs.

Losun frá landbúnaði veltur að mestu á stærð bústofna, sérstaklega nautgripa og sauðfé. Árið 2016 var losun frá landbúnaði 4% minni en árið 1990, þó svo að hún hafi aukist um 10% frá árinu 2005 til 2016 vegna stækkun bústofns. Magn köfnunarefnis í áburði skiptir þó einnig máli þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.

 

Losun frá úrgangi

Þróun í úrgangi

1990-2016: +31%
2005-2016: -18%
2015-2016: -4%

Losun frá úrgangi árið 2016 var 237 kt. CO2-íg. eða 5% af heildarlosun Íslands, án LULUCF. 90% af losun frá úrgangi er vegna losunar frá urðun, en restin kemur frá meðhöndlun skólps, brennslu og jarðgerð.

Árið 2016 var losun frá úrgangi 31% meiri en árið 1990, þó svo hún hafi minnkað um 15% síðan 2005.

 

Þróun í LULUCF

1990-2016: +1%
2005-2016: +1%
2015-2016: +0,2%

Losun er kemur frá flokknum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt eða endurheimt votlendis er talin fram undir flokknum LULUCF og getur Ísland talið sér þá losun til tekna á móti annarri losun.

 

 

 

Losun frá LULUCF er há á Íslandi miðað við heildarlosun Íslands frá öðrum flokkum og var nettó losunin metin sem 10.222 kt. CO2-íg. (losun – binding kolefnis = nettó losun), sem er rúmlega 1% aukning frá nettólosun 1990. Losunin jókst úr 10.093 kt. CO2-íg. árið 1990 í 10.222 kt. CO2-íg. árið 2016. Mest losun er metin frá graslendi, ræktunarlandi og votlendi, í þeirri röð. Losun frá LULUCF skal túlka með nokkrum fyrirvara þar sem óvissa varðandi losunarstuðla og uppsprettur er veruleg.

 

Ísland hefur heimild, í samræmi við. 3.gr. 3. og 4. mgr. Kýótó-bókunarinnar til að telja sér bindingu kolefnis til tekna. Tafla 1 hér að neðan sýna fjölda bindingareiningar (RMUs í þúsundum) sem Ísland gat nýtt sér á fyrsta tímabili Kyótó-bókunarinnar (2008-2012). Tafla 2 sýnir fjölda bindingareininga (í þúsundum) sem Ísland getur talið sér til tekna eftir fyrstu fjögur árin á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar. Í Töflu 2 sést að binding kolefnis hefur aukist ár frá ári á tímabilinu, og fór úr 312,3 kt. CO2-íg. árið 2013 í 418.5 kt CO2-íg. árið 2016.

 

2008

2009

2010

2011

2012

CP1

Grein 3.3

-103

-116

-136

-153

-173

-681

Grein 3.4

-152

-160

-172

-184

-194

-862

Bindingareiningar (RMUs)

-256

-275

-307

-338

-367

-1543

 

 

2013

2014

2015

2016

CP2

Grein 3.3

-185

-206

-227

-232

-851

Grein 3.4

-127

-139

-154

-186

-606

Bindingareiningar (RMUs)

-312

-345

-381

-418

-1457

Ítarefni um loftslagsmál

Landsskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda

 Landskýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda 2018 - National Inventory Report 2018

Eldri skýrslur

Aðrar skýrslur um loftslagsmál

Annað ítarefni

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira