Hávaði

Hávaði er nánast alls staðar í daglegu umhverfi okkar og uppspretturnar margar, bæði í vinnuumhverfinu og þar sem við verjum frítíma okkar, jafnt heima sem heiman. 
 • Umferð á láði, legi og í lofti 
 • Tæknibúnaður innan dyra sem utan
 • Iðnaður og atvinnustarfsemi 
 • Hávaði frá nágrönnum 
 • Byggingastarfsemi og ýmis konar framkvæmdir 
 • Íþróttir og líkamsrækt 
 • Tómstundir og menningarviðburðir 

Í þéttbýli er það aðallega hávaði frá umferð og nágrönnum sem angrar fólk, auk hvers kyns tækjabúnaðar í byggingum. 

Hávaði er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó hávaði sé ekki lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Hávaði getur valdið varanlegum heyrnarskaða og eyrnasuði, hann truflar svefn og hvíld, dregur úr málskilningi og námsgetu og veldur stressi. Áhrif hans fara eftir því af hvaða toga hávaðinn er, tíðnisvið hans og styrkleika, hvernig hann breytist með tímanum og á hvaða tíma sólarhringsins við heyrum hann. 

Rannsóknir sýna að mikill hávaði hefur neikvæð áhrif á málþroska og náms- og lestrargetu barna. Börn eiga erfiðara með að greina talað mál út úr hávaða en fullorðnir. Fyrst við 13-15 ára aldur hafa þau náð sömu hæfni og fullorðnir hvað þetta varðar. Talið er að lestrarörðugleika hjá börnum megi oft tengja við hávaða í kennslustofum. Hávaðamælingar í skólum, leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum hér á landi sýna að þessir staðir uppfylla oft ekki kröfur um ómtíma auk þess sem meðaltal hljóðstigs þar er oft yfir hættumörkum (80-85 dB). Þetta er verulegt áhyggjuefni einkum vegna þess að heyrn barna er viðkvæmari en fullorðinna. Þá sýna niðurstöður mælinga á tónleikum að þar fer hávaði oft langt yfir hættumörk. 

Hávaði í vinnustöðum

Hávaði á/frá vinnustöðum er m.a. margs konar vélarhljóð svo sem frá blásurum, kælipressum, hristurum, kvörnum og vinnuvélum af ýmsu tagi. Á skrifstofum veldur ýmis konar utanaðkomandi hávaði truflun, en einnig geta loftræsikerfi, ljósritunarvélar, prentarar og tölvur o.fl. valdið truflun. Í skólum og leikskólum eru það gjarnan athafnir barnanna sem valda mestum hávaða. Frekari fróðleik og upplýsingar um hávaða á vinnustöðum má finna á vefsíðum Vinnueftirlitsins

Reglur um hávaða og eftirlit 

Menn við vegavinnu með loftbor

Í reglugerðum er að finna ákvæði um hávaða á vinnustöðum, hönnun húsa varðandi hljóðvist þeirra og um hávaðamörk utanhúss. Þá geta heilbrigðisnefndir gefið fyrirmæli vegna ónæðis af hávaða á skemmtistöðum, frá hljómflutningstækjum og öðrum tækjum á almannafæri. 

Byggingarfulltrúar, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Vinnueftirlit ríkisins hafa eftirlit með hljóðhönnun húsa, hávaða og mæla hljóðstig og ómtíma (ómtími er sá tími sem tekur hljóð að deyja út). 

Hvað er hljóð? 

Hljóð er bylgjuhreyfing í lofti. Eðlisfræðilega er enginn munur á hávaða og hljóði, en frá sálrænu sjónarhorni er hljóð upplifun. Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt eða skaðlegt hljóð. 

Mælieining fyrir hljóð er desiBel (dB) sem er lógaritmískur skali, þannig að 3ja dB hækkun á hljóðstigi jafngildir tvöföldun á styrkleika þess. Til þess að taka tillit til breytilegrar næmni mannseyrans fyrir mismunandi tíðni hljóðs, er við mælingar beitt ákveðinni síu og er þá talað um dB(A). Venjulegt samtal getur verið um 60 dB. Fari hávaði yfir ákveðin mörk getur hann farið að valda heyrnarskemmdum. Hættumörk eru talin vera við 80-85 dB jafngildishljóðstig eða við styttri hljóðtoppa 120-130 dB. 

Hættan eykst með auknum hljóðstyrk og lengd þess tíma sem dvalið er í hávaða. 

Heyrn 

Heyrnarskerðing er algengasta afleiðing hávaða og algengasti óafturkræfi vinnuskaðinn. Hávaði á tónleikum, diskótekum, akstursíþróttasvæðum, frá vélsögum, ferðaspilurum, leikföngum og flugeldum veldur oft heyrnarskaða. 

Væg heyrnardeyfa hjá börnum og fullorðnum dregur verulega úr hæfni þeirra til þess að skilja mál og ná hátíðnihljóðum (6 – 8000 Hz), einkanlega þar sem hljómburður er lélegur. Margir óraddaðir samhljóðar hafa tíðnina 6 – 8000 Hz en talið er að 60% af getu okkar til að heyra rétt, og þar með skilja það sem sagt er, byggist á því að heyra samhljóða, en aðeins 5% byggi á getunni til þess að heyra sérhljóða. 

Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós að um 70% framhaldskólanema hafa greinst með forstigseinkenni af varanlegri heyrnardeyfu. Einnig fjölgar ört þeim unglingum sem þjást af eyrnasuði (tinnitus) og segja margir þeirra að það hafi byrjað eftir að þeir höfðu hlýtt á háværa tónlist. Ætla má að ástandið hér á landi sé ekki mjög frábrugðið því sem er í Bandaríkjunum.

Leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna

Hljóðvistarkröfur í umhverfi barna - Leiðbeiningar

Mikilvægt er að gætt sé að hljóðvist húsnæðis strax á hönnunarstigi og því síðan fylgt eftir að rétt sé staðið að málum, því erfitt og kostnaðarsamt er að bæta úr göllum eftir á. Til er hljóðflokkunar staðall fyrir húsnæði, sem eðlilegt er að nota við hönnun húsnæðis. Í eldra húsnæði er hægt að bæta hljóðvist m.a. með því að setja hljóðeinangrandi efni í loft og niður á veggi, nota frekar mjúk gólfefni en hörð og að nota millilag þar sem hörð gólfefni eru notuð. Í skólum og leikskólum má, auk þessa, huga að fækkun barna í kennslustofum, breyttri dagskrá, skipta bekkjum upp í minni hópa, nýta allt húsnæðið, nota mottur þar sem leikið er með hávær og hörð leikföng, setja tappa undir borð- og stólfætur o.s.frv. Þá er mikilvægt að velja vel hönnuð húsgögn, sem ekki valda miklum hávaða. 

Á vinnustöðum er reynt að draga úr hávaða véla og tækja með ýmsum ráðum og starfsfólki útvegaðar heyrnahlífar þar sem jafngildishávaði er > 85 dB. Reynt er að draga úr hávaða frá umferð með byggingu hljóðmana og bættu skipulagi. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að framleiða hljóðlátari bíla, flugvélar og ýmis önnur tæki, en fjölgun þeirra dregur úr gagnsemi þessara aðgerða. 

Umhverfisstofnun hefur látið útbúa leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna í samræmi við 11. grein í reglugerð nr. 724/2008, um hávaða. 

Útgáfa leiðbeininga um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna er þríþætt, leiðbeiningar þessar sem gefnar eru út af Umhverfisstofnun og tvennar leiðbeiningar til viðbótar sem gefnar eru út af Mannvirkjastofnun. Allar þrjár útgáfurnar fjalla um þau atriði sem koma fram hér að neðan. Í þessum leiðbeiningum er lögð áhersla á mörk fyrir hávaða í umhverfi barna, eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna og góð ráð gegn hávaða í umhverfi barna. Mannvirkjastofnun leggur sérstaka áherslu á hönnun húsnæðis þar sem börn dvelja og hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi, annars vegar í nýju húsnæði og hins vegar í breyttu húsnæði. Vísað er til annarra leiðbeininga þar sem þörf er talin á.

Leiðbeiningar þessar fjalla um: 

 1. Íslenski staðallinn „Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis“ 
 2. Reglugerð um hávaða 
 3. Byggingarreglugerð 
 4. Eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna 
 5. Hönnun húsnæðis þar sem börn dvelja 6. Góð ráð gegn hávaða í umhverfi barna 

Leiðbeiningar um mæliaðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits hafa einnig verið gefnar út.

Kortlagning hávaða og aðgerðaáætlanir

Hér fyrir neðan er að finna upplýsingar um kortlagningu hávaða á vegum og á þéttbýlissvæðum á Íslandi, auk þess sem hávaðakort og aðgerðaáætlanir eru aðgengileg.

Árið 2005 tók gildi reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir, var hún sett til innleiðingar á tilskipun 2002/49/EB um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu. Markmið reglugerðarinnar er að kortleggja og meta hávaða og leggja grunn að aðgerðum til að draga úr ónæði og truflunum af völdum hávaða. Reglugerðin tekur til hávaða sem fólk verður fyrir á byggðum svæðum, á útivistarsvæðum, og kyrrlátum svæðum í þéttbýli og dreifbýli, við skóla, sjúkrastofnanir og aðrar byggingar þar sem fólk er viðkvæmt fyrir hávaða.

Hávaðakort er skilgreint sem kort sem endurspeglar mældan eða útreiknaðan hávaða á tilteknu svæði frá mismunandi hávaðauppsprettum. Aðgerðaáætlun er áætlun um aðgerðir sem hafa það markmið að stýra hávaða og draga úr hávaða og óæskilegum áhrifum hans. 

Verkefni sem fyrir lágu með tilkomu reglugerðarinnar fólu í sér að kortleggja skyldi hávaða á þéttbýlissvæðum, við stóra vegi og stóra flugvelli og meta hve margir verða fyrir áhrifum af völdum hans. Ákvarða skyldi gildi Lden (hávaðavísir að degi – kvöldi – nóttu) og Lnight (hávaðavísir að nóttu). Á Íslandi er að finna stóra vegi og þéttbýlissvæði skv. skilgreiningum reglugerðarinnar og skyldi kortleggja skv. því. Veghaldari geri hávaðakort sem sýni stöðu ársins á undan fyrir stóra vegi og sveitarstjórn útbúi hávaðakort sem sýni stöðu ársins á undan fyrir þéttbýlissvæði. Meta skal á fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða hávaðakort. Komi í ljós við hávaðakortlagningu að hávaði er yfir umhverfismörkum, skv. reglugerð um hávaða, skal vinna áætlun um aðgerðir með það að markmiði að draga úr áhrifum hávaða. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að aðgerðaáætlun sé gerð og skal hún unnin í samvinnu við veghaldara stórra vega á svæðinu. Ennfremur skal haft samráð við heilbrigðisnefnd á viðkomandi svæði og hún auglýst og kynnt almenningi með almennum hætti í fjórar vikur og gefinn kostur á athugasemdum við áætlunina. Í aðgerðaáætlun skal gerð grein fyrir einstökum aðgerðum, áætluðum áhrifum þeirra og forgangsröðun í samræmi við áherslur og ákvarðanir hlutaðeigandi aðila. Meta skal á fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða aðgerðaáætlanir. 

Hávaði var kortlagður á stórum vegum og á þéttbýlissvæðum í þremur áföngum (sjá neðar). Gögnum var skilað til Eftirlitsstofnunar EFTA skv. ákvæðum tilskipunar um kortlagningu og aðgerðáætlanir.

 

NOISE eða Noise Observation and Information Service for Europe er vefsjá fyrir almenning þar sem skoða má hávaðastig víðs vegar um Evrópu. NOISE er í raun gagnagrunnur fyrir niðurstöður hávaðakortlagningar hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins og Umhverfisstofnunar Evrópu í samræmi við ákvæði tilskipunar 2002/49/EB um mat og stjórnun á hávaða í umhverfinu, tilskipun sem innleidd var á Íslandi 2005. Kortleggja skal hávaða vegna vega, lesta, flugvalla og þéttbýlissvæða að ákveðnum stærðargráðum í aðildarríkjum, niðurstöðurnar eru svo gerðar aðgengilegar almenningi á myndrænan hátt í NOISE sem einfalt er að nýta sér. Notkun almennings á gagnagrunninum eykst ár frá ári og þekkt er að húsnæðisleitendur og ferðalangar nýti sér grunninn m.t.t. ákvörðunar á staðsetningu. 

NOISE gagnagrunnurinn er þróaður af Umhverfisstofnun Evrópu og European Topic Centre on Spatial Information and Analysis, á vegum Evrópusambandsins. 

Frekari upplýsingar um kortlagningu hávaða á Íslandi er að finna undir flipanum Hávaðakort hér til hliðar. 

Skjámynd af NOISE

Hávaðakort

Vegagerðin og sveitarfélögin Akureyri, Árborg, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík, Reykjanesbær og Seltjarnarnes auk Isavia f.h. Keflavíkurflugvallar hafa kortlagt hávaða við stóra vegi, í þéttbýli og frá flugumferð. 

Við kortlagningu hávaða voru útreikningar m.v. 4 metra hæð yfir landi og hávaði gefinn upp með hávaðavísunum Lden (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring) og Ln (gildi hávaða að nóttu til). Niðurstöður útreikninga eru settar fram á hávaðakortum, þar sem mismunandi litir sýna mismunandi hávaðagildi, mælt í desíbelum (dB). Metin er stærðargráða á svæðum, fjölda íbúa, skóla og heilbrigðisstofnana sem verða fyrir hávaða meiri en Lden 55 dB og Ln 50 dB.  
Útreikningar fyrir hávaðakortlagningu árið 2017 sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 26.300 íbúða eða hjá allt að 64.000 íbúum. Hávaðakortin eru reiknuð m.v. 4 metra hæð og sýna hávaðadreifingu yfir stór svæði. Þau hafa upplýsingagildi fyrir almenning auk þess að vera til hliðsjónar við gerð skipulagsáætlana fyrir sveitarfélög. Fyrir mat á hávaða við skipulagsáætlanir og fyrir stakar byggingar skv. reglugerð um hávaða nr. 724/2008 eru aftur á móti notuð nákvæmari hávaðakort fyrir afmörkuð svæði þar sem almennt er miðað við 2ja m hæð yfir jörðu og eru ekki hluti af hávaðakortlagningu þessari. 

Hávaðakort fyrir vegina og þéttbýlissvæðin má sjá hér fyrir neðan. Einnig greinagerðir fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig sem fjalla meðal annars um niðurstöður mælinga og útreikninga, fjölda íbúa sem verða fyrir hávaða og yfirlit yfir hljóðvarnir. 

Hávaðakort:

Greinargerðir:

 
 
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira