Ýmis umhverfismerki

Umhverfismerki

Það getur verið erfitt að rata í umhverfismerkjafrumskóginum þar sem finna má mörg merki sem eru jafn ólík og þau eru mörg. Engu að síður eru hin áreiðanlegu og altæku umhverfismerki ekki svo afskaplega mörg og því ætti hver og einn að geta lagt nokkur þeirra á minnið. Hér verða nokkur þessara hágæða umhverfismerkja kynnt en einnig verður sagt fá fleiri tegundum merkja og hvað einkennir þau.

Áreiðanleg umhverfismerki

SvansmerkiðMerki evrópublómsinsBra miljöval merkiðMerki bláa engilsins

Þessi merki eru meðal þeirra sem talin eru í hæsta gæðaflokki merkja. Neytendur geta treyst því að þegar þeir kaupa vöru eða þjónustu sem merkt er Svaninum, Evrópublóminu eða öðrum sambærilegum merkjum þá séu þeir að velja það best fyrir umhverfi og heilsu. Þessi merki tákna ekki að varan sé lífræn.

Áreiðanleg merki eiga það sameiginlegt að:

  • Þau eru valfrjáls leið til að markaðsetja umhverfiságæti vöru eða þjónustu
  • Úttekt er sinnt af óháðum, þriðja aðila
  • Viðmið eru þróuð af sérfræðingum
  • Viðmið notast við lífsferilsnálgun, þ.e. gera kröfur til hráefnis, framleiðslu, notkunar og förgunar
  • Viðmið eru hert á nokkurra ára fresti sem tryggir sífelldar betrum bætur á vörunni eða þjónustunni

Allt ofangreint er í samræmi við ISO staðalinn 14026 sem tilgreinir hvað þarf að einkenna áreiðanleg umhverfismerki. Þau merki sem ekki uppfylla ofangreind atriði teljast því ekki sem eiginleg umhverfimerki því vottun þeirra beinist að ákveðnum afmörkuðum  hluta framleiðslunnar eða hráefnisnotkunarinnar í stað þess að vera allt um lykjandi líkt og áreiðanlegu umhverfismerkin.

 

Svanurinn

Merki svansins

Merkið var stofnað á Norðurlöndunum árið 1989. Merkið þýðir ekki að varan sé lífræn en í sumum vöruflokkum, til dæmisvefnaðarvöru er gerð krafa um að varan sé 100% lífræn til að fá Svansmerkið.

Blómið og Svanurinn eru opinber merki Íslands en Umhverfisstofnun fer með umsýslu þeirra. Umhverfismerkisnefnd tekur ákvarðanir um kröfurnar og í henni sitja fulltrúar yfirvalda, neytenda- og umhverfisamtaka, verslun og iðnaði.

Lestu meira um Svaninn á heimasíðu Umhverfisstofnunar

 

Evrópublómið

Merki evrópublómsinsMerkið var stofnað árið 1992 af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Blómið er notað í allri Evrópu. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Blóminu á Íslandi.

Til þess að uppfylla kröfur Blómsins eru umhverfisáhrif vörunnar metin, til að mynda orkunotkun við framleiðslu eða umhverfisálag við notkun og íblöndun kemískra efna.

Lestu meira um Blómið á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

 

Blái Engillinn

Merki bláa engilsins Blái engillinn (Der Blaue Engel) er þýskt umhverfismerki.

Þýsk yfirvöld ákveða innan hvaða vöruflokka er hægt að fá vottun. Viðmið merkisins eru þróuð í samvinnu við fulltrúa frá umhverfisyfirvöldum, iðnaði, neytendasamtökum ásamt öðrum hagsmunaaðilum og sérfræðingum.

Lestu meira um Bláa engilinn á heimasíðu merkisins


Bra miljöval

Merki Bra miljöval Merkið er þróað af náttúruverndarsamtökunum Naturskyddsforeningen í Svíþjóð í samvinnu við samtök verslunar.
Merkjasamtökin hafa mótað úrval heilstæðra umhverfisviðmiða sem framleiðendur eða dreifingaraðilar verða að uppfylla. Í þeim felst til að mynda að við framleiðslu má ekki notast við efni sem eru þrávirk eða skaðleg umhverfinu. Einnig eru settar kröfur um orkunotkun auk þess sem það verður að vera hægt að endurvinna vöruna eða að niðurbrot hennar hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið.

Lestu meira um Bra Miljöval á heimasíðu Naturskyddsforeningen

Green Seal

Merki Green SealMargar bandarískar vörur á markaði hérlendis eru merktar Green Seal merkinu. Þetta er bandarískt merki sem telja má til áreiðanlegra umhverfismerkja og er rekið af samtökum sem eru ekki starfrækt í hagnaðarskyni. Samtökin voru stofnuð árið 1989 og Green Seal er elsta merki sinnar tegundar í Bandaríkjunum.

Lestu meira um Green Seal á heimasíðu merkisins.

Orka og raftæki

Þessi merki segja til um að varan hafi uppfyllt ákveðin skilyrði varðandi orku. Til að mynda er merkið Energy star til marks um að vara er sérlega sparneytin á rafmagn en merkið gerir enga kröfu um hráefnaval, notkun kemískra efna eða um orkusparnað í framleiðslu.

 

Orkumerki Evrópusambandsins

Merkið sýnir ör sem bendir ýmist á græna eða rauða liti þar sem grænt táknar sparneytni í orkunotkun en rautt þýðir mikil orkunotkun. Einnig sýnir merkið táknmyndir til að greina frá árlegri orkunotkun vörunnar ásamt öðrum eiginleikum svo sem hávaða.

Árið 2011 var Orkumerki Evrópusambandsins breytt og kröfur hertar. Nýja merkið tekur mið af aukinni sparneytni nýrra raftækja og veitir því vottun allt upp í A+, A++ og A+++. Fyrir ís- og frystiskápa var nú þegar búin að bæta við flokkunum A+ og A++.

Frá og með nóvember 2012 eru hjólbarðar einnig flokkaðir með orkumerkinu.

Eftirfarandi vöruflokkar skulu vera auðkenndir með Orkumerki Evrópubandalagsins:
•    Ís- og frystiskápar
•    Uppþvottavélar
•    Þvottavélar
•    Þurrkarar
•    Sameiginglegar þvottavélara og þurrkarar
•    Rafmagnslampar
•    Rafmagnsofnar
•    Loftræstikerfi fyrir heimilisnotkun
•    Sjónvörp

 

 

 

Energy star

Merkið er undir eftirlit Evrópusambandsins og bandarísku umhverfisstofnunarinnar.

Energy Star er valfrjáls merking fyrir sparneytin skrifstofutæki, til að mynda tölvur, tölvuskjái, prentara og ljósritunarvélar. Vörurnar skulu vera sparneytnar á orku  bæði við noktun og í dvala. Til að hljóta Energy Star verða vörur að fara sjálfkrafa í dvala eða slökkva á sér þegar þær eru ekki í notkun.  

Lestu meira um Energy Star á heimasíðu Evrópusambandsins


Raftækjamerkið

Á raf- og rafeindatækjum sem skila skal til endurvinnslu er lítil mynd af yfirstrikaðri sorptunnu á hjólum eins og hér er sýnt. Þetta merki er að finna t.d. á raftækjum, rafhlöðum og sparperum.
Merkið þýðir að ekki má henda vörunni í ruslafötuna, heldur ber að skila því til endurvinnslu.

Öll ný raftæki skulu bera raftækjamerkið. Raftækja úrgangur er bæði hættulegur og sístækkandi úrgangsflokkur. Raf- og rafeindatæki innihalda fjölda efna sem slæm eru fyrir umhverfið, einkum þungmálma. Merkið skal vera sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt.

Lestu meira um merkið á heimasíðu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

 

TCO99

Að merkinu standa Bandarísku samtökin TCO Development. Vörur sem merktar eru TCO merkinu mega ekki innihalda klór – eða brómeruð eldvarnarefni. TCO merktar vörur eru endurvinnanlegar.
TCO gerir meðal annars kröfur um :
•    Góð myndgæði á skjám
•    Minni hitalosun frá vörum og þar af leiðandi minni orkunotkun og betri loftgæði innandyra
•    Minni losun þungmálma, brómeraðra eldvarnarefna og annarra efna.


Lestu meira um merkið á heimassíðu TCO- Development

 

 

  Lífræn ræktun

Merki um lífræna ræktun eru til marks um að við framleiðslu hráefna í tiltekna vöru hefur alþjóðlegum stöðlum um lífræna ræktun verið fylgt. Ef merki um lífræna ræktun er á er á brauðtegund þá segir það sem sagt ekki til um það hvernig brauðið var bakað eða í hvernig umbúðum það er heldur er þá eingöngu verið að vísa til þess að ákveðin skilyrði voru uppfyllt þegar hráefnin í brauðinu voru ræktuð. Sumir staðlar um lífræna ræktun ná þó lengra, sjá hér að neðan.

Skilyrði um lífræna ræktun fjalla til dæmis um að:

  • sáðvara, áburður og varnarefni þurfa  að vera af náttúrulegum toga
  • skiptiræktun er stunduð í stað síræktunar
  • búfé fær lífrænt fóður

Hér að neðan er að finna örlitla umfjöllun um helstu merki um lífræna ræktun sem finna má hér á landi. Það fer að mestu eftir uppruna vörunnar hvaða merki er að finn á henni.

Fleiri merki fyrir lífræna ræktun má finna hér

 

 Tún

Merki vottunarstofunnar Tún, eru lífræn vottun. Tún er faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu. Tún er þróunarfélag í þágu almannahagsmuna og vinnur að nýsköpun matvælaframleiðslu og náttúrunytja í samræmi við alþjóðlega staðla um tillitsemi við lífríki og náttúru. Siðfræði sjálfbærrar þróunar og heilbrigðis allrar lífkeðjunnar eru megin leiðarljós í þjónustu Túns.

Lestu meira um merki Túns á heimasíðu þeirra

 

Merki Evrópusambandsins fyrir lífræna ræktun

Framleiðsla á vörum sem eru vottaðar með þessu merki skal taka tillit til umhverfis og velferð dýra. Merkið má finna á vörum sem eru framleiddar í ótal Evrópusambandsríkjum.
Evrópusambandið gerir kröfu um að yfirvöld í viðkomandi ríki hafi eftirlit með framleiðendum og vörum. Eftirlitinu er ætla að tryggja að vörurnar séu ósviknar og að kröfum til framleiðsluaðferða sé fylgt. Í það minnsta einu sinni á ári láta yfirvöld kanna að framleiðendur standist kröfur um lífræna rætkun.
Merkið nær ekki yfir orku- eða samgönguþætti.

Lestu meira um merki Evrópusambandsins og lífræna ræktun á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Debio

Norska Debio merkið tryggir að við framleiðslu vörunnar hefur bæði norskum reglum og reglum Evrópubandalagsins um lífræna ræktun verið fylgt. Þannig tryggir Debio merkið að búið er að taka tillit til umhverfisins, dýraverndar og lífrænna ræktunarskilyrða.

 

Lestu meira um Debio á heimasíðu merkisins.

Demeter

Framleiðendur sem notast við merkið þurfa að standast tvenns konar eftirlit. Í fyrsta lagi þurfa þeir að fylgja ríkisreglum um lífræna vottun þar sem þeir notast við orðið ”Bio” í kynningu á vörum sínum. Í öðru lagi þurfa þeir að standast kröfur Demetersamtakanna um lífeflda ræktun (biodynamic). Samtökin notast  við tvö svipuð merki sem eru að öllu leyti sambærileg.

 

Lestu meira um Demetermerkið og lífeflda ræktun hjá dönsku Samtökunum um lífeflda ræktun


KRAV

 Merkið er opinbert sænskt merki sem vottar og hefur eftirlit með lífrænni ræktun. Merkið tryggir að við framleiðslu er tekið tillit til umhverfisþátta, velferð dýra, samfélagslegrar ábyrgðar og hollustu.
Til að fá merkið fyrir plönturækt þarf ræktunin í það minnsta að samræmast reglum EB um lífrænan landbúnað. Merkið er valfrjálst og framleiðandinn greiðir fyrir notkun á merkinu.

Lestu meira um KRAV merkið á heimasíðu merkisins


Ø-Merkið

Merkið er einnig hægt að finna á erlendri lífrænni vöru ef hún er unnin í Danmörku. Lífræn unnin matvæli, s.s. pate, sulta og tilbúnir réttir mega ekki innihalda gervisykur eða gervi bragðefni og mun færri aukaefni eru leyfð en í matvælum sem framleidd eru á hefðbundinn hátt.
Ø-merkið með textanum "Statskontrolleret økologisk" er einnig hægt að finna á lífrænum vörum sem ekki eru matvæli s.s. fóðurvöru, fræum, forræktuðum plöndum og hunda- og kattaamat ef hann er framleiddur undir eftiliti lífrænna vara í Danmörku. Ø-merkið er notað í bæði rauðum og svörtum lit.

Lestu meira um Ø-merkið

 

Soil association

Markmið samtakanna eru að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærni en samtökin eru stærst sinnar tegundar í Englandi. Soil Association merkið tryggir að vörurnar uppfylli umhverfiskröfur ESB um lífræna ræktun en jafnframt uppfylla þau enn strangari kröfur um sjálfbærni.

The Soil Association hefur þróað röð metnaðarfullra staðla. Meðal annars er siðferðilegra sjónarmiða gætt, en  framleiðendur skuldbinda sig til að nota ekki börn í vinnu, að tryggja starfsfólki mannsæmandi lífskjör og forðast mismunun. Meðlimum samtakanna ber einnig að fylgja reglum um velferð dýra og sjálfbæra framleiðslu í landbúnaði og skógrækt. Hægt er að finna merki Soil Association á margvíslegum sviðum og vörum.

Lestu meira um merkið á á heimasíðu Soil Association

 

GOTS

GOTS stendur fyrir Global Organic Textile Standard eða Alþjóðlegi staðallinn fyrir lífræna vefnaðarvöru. Merkið er rekið af fjórum samtökum um lífræna rækun eða OTA (USA), IVN (Germany), Soil Association (UK) og JOCA (Japan) sem sammælast um kröfur fyrir lífræna vefnaðarvöru.
Samkvæmt kröfum merkisins þarf vefnaðarvara að vera í að minnsta framleidd úr 95% lífrænt ræktuðum trefjum og framleiðslan þarf að vera hvoru tveggja umhverfislega og félagsleg ábyrg. Einnig er hægt að fá vottun fyrir vefnaðarvöru sem inniheldur minna en 95% af lífrænt ræktuðum trefjum ef bómullinn kemur sannarlega frá ræktun sem er að vinna að því að ná lífrænni vottun.

Lestu meira um merkið á heimasíðu GOTS

 

EcoCert

EcoCert eru einkarekin samtök sem hafa réttindi til að reka og votta EcoCert merkið. EcoCert merkið má finna bæði á matvörum, vefnaðarvörum og snyrtivörum.

Lestu meira um EcoCert merkið á heimasíðu merkisins
Sjálfbær framleiðsla á hráefni

Sum merki segja til um hvort framleiðsla á tilteknu hráefni teljist sjálfbær. Slík merki má finna á til dæmis ýmsum afurðum úr timbri, svo sem garðhúsgögnun, prentpappír eða timburkolum og á frosnum fiskiafurðum.

 

FSC um sjálfbæra skógrækt

Í FSC merktri skógrækt eru ekki felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Jafnframt tryggir FSC vottun að dýra- og plöntulíf  er verndað og að starfsmenn skógræktarinnar fá nauðsynlegan öryggisútbúnað og sæmileg laun.
Merkið felur ekki í sér lífræna vottun.
FSC merkið var stofnað fyrir tilstilli alþjóðlegs samstarfs á milli umhverfissamtaka, mannréttindasamtaka, skógræktar og timburiðnaðar. Tilgangur merkisins er að fá framleiðendur til að taka meiri ábyrgð á umhverfislegum-, félagslegum- og hagrænum þáttum í skógrækt. FSC er viðurkennt af samtökum svo sem WWF (wwf.org) og Greenpeace (greenpeace.org).
Lestu meira um FSC á heimasíðu merkisins


PEFC

PEFC er stytting á Programme for the Endorsement of Forest Certification schemes.
Þetta merki tryggir að timbrið kemur frá sjálfbærri skógrækt, þar sem er bæði tekið tillit til umhverfismála, líffræðilegs fjölbreytileika og félags- og efnahagslegra aðstæðna verkamannanna.
Kröfur vottunarkerfisins varða aðeins sjálfbæra nýtingu skóga og timburs eða viðartrefja frá skóginum til neytenda. Skógræktarstaðall PEFC leitast við að ná yfir allar gerðir og stærðir skóga
Lestu meira um PEFC á heimasíðu merkisins

 

MSC (Marine Stewardship Council)

Merkið gefur til kynna að ekki sé um að ræða fiskitegund sem er í útrýmingarhættu og að framleiðsluaðferðir sem notaðar eru verndi líffræðilegan fjölbreytileika hafsins.
MSC merkið er eina merkið fyrir villtan fisk sem stenst staðla Sameinuðu þjóðanna um staðla fyrir umhverfismerkingar. Merkið felur ekki í sér lífræna vottun.

MCS byggir á þremur meginreglum:
1.    Veiðarnar skulu framkvæmdar á þann hátt að þær leiða ekki til ofveiða.
2.    Veiðarnar skulu framkvæmdar á þann hátt að þær varðveiti vistkerfi hafsins, virkni þess, uppbyggingu og fjölbreytileika.
3.    Veiðarnar skulu byggðar á skilvirku stjórnkerfi sem fylgir jafnt alþjóðlegum- sem og landslögum. Veiðarnar skulu þar að auki byggðar á kerfi sem tryggir örugga langtíma nýtingu.  

Lestu meira um MSC á heimasíðu merkisins
 
Sanngjörn viðskipti

Þessi merki sýna fram á að viðskipti með þessa vöru flokkast sem sanngjörn viðskipti. Því lengra sem vara ferðast til að komast á borð neytenda því erfiðara er fyrir neytandann að vita nokkuð um framleiðsluferil vörunnar. Til eru merki sem ætlað er að segja neytendum að siðferðilegra sjónarmiða hafi verið gætt við framleiðslu vörunnar svo sem að starfsfólki séu tryggð lágmarksréttindi varðandi laun og aðbúnað. Fair trade merkið er þeirra þekktast. Sum merki á öðrum flipum síðunnar, ná að hluta einnig til viðskiptahátta, eins og FCS merkið til að mynda.

 

Fair trade

Merkið tryggir að við framleiðslu vörunnar eru gerðar lágmarkskröfur um verð, vinnuaðbúnað, lýðræðislega þróun og umhverfismál. Á þann máta eru bændum í það minnsta tryggðar réttmætar lágmarks tekjur fyrir sínar afurðir. Lágmarksverð fyrir vottaðar vörur er meðal annars ákveðið út frá nauðsynlegum ráðstöfunartekjum í viðkomandi landi eða heimshluta.

Merkið var stofnað í Hollandi árið 1988 og er ekki einskorðað við þróunarlönd. Á Norðurlöndunum má víða finna vottaðar innlendar vörur en þar eru framleiðendur mjög gjarna bæði með vottun um siðferðileg viðskipti og lífræna ræktun.

Lestu meira um Fair trade á heimasíðu merkisins

 

Til eru merki sem segja til um heilnæmi vöru og ná til mismunandi þátta. Skráargatið, nær til að mynda til hollustu matvæla en önnur merki, gefa til kynna að í vörunni sé ekki að finna óæskileg efni.

 

Skráargatið

Þetta merki er upprunið í Skandivaníu og er valfrjáls merking fyrir matvælaframleiðendur sem vilja sýna fram á hollustu sinna matvæla. Merkið táknar hvaða matvæli uppfylla opinberar ráðleggingar um mataræði hvað varðar skilyrði fyrir innihald fitu, sykurs, salts og trefja.
Merkið er ekki lífræn vottun.
Merkið er upprunalega sænskt og hefur verið hægt að finna merkið á matvælum sem upprunnin eru í Svíþjóð. Matvæli sem eru sem eru ætluð börnum yngri en þriggja ára er ekki hægt að merkja Skráargatinu.

Lestu meira um Skráargatið á heimasíðu Norrænu Ráðherranefndarinnar


Ofnæmismerki Danmerkur

Bláa merkið hér til vinstri er danskt merki, sem sýnir að varan hefur verið þróuð í samráði við dönsku astma- og ofnæmissamtökin.
Ofnæmismerkið miðast við snertiofnæmi og því má sjá merkið á vörum sem komast í beina snertingu við húðina.
Merkið felur ekki í sér lífræna vottun.

Ofnæmismerkið þýðir ekki að varan sé viðurkennd af eða framleidd fyrir tilstuðlan dönsku astma- og ofnæmissamtakanna. Hins vegar felur merkið í sér að samtökin hafa farið í gegnum innihaldsefni vörunnar og staðfest að í ljósi nýjustu rannsókna felist lágmarks áhætta á ofnæmi við notkun vörunnar. Það ber því að líta á staðfestingu samtakanna sem leiðbeiningu en ekki tryggingu.

Lestu meira um danska ofnæmismerkið á heimasíðu dönsku astma of ofnæmissamtakanna


 Tiltro til textiler

Á bak við merkið standa alþjóðleg samtök í vefnaðariðnaði. Merkið sýnir að ekki er farið yfir leyfileg viðmiðunarmörk um hættuleg efni í vefnaðarvörunni. Merkið er ekki lífræn vottun

Lestu meira um merkið á heimasíðu samtakanna

 

Umhverfisstjórnunarkerfi

    

Þessi merki eru ekki merkingar á einstökum vörum heldur eru þetta vörumerki ákveðinna gæða- og umhverfisstjórnunarkerfa. Þessi stjórnunarkerfi eru verkfæri sem fyrirtæki geta notfært sér til þess að hámarka gæðastýringu á þeim þáttum starfseminnar sem valda umhverfisáhrifum. Fyrirtæki sem nýta sér þessi stjórnunarkerfi  ákveða sjálf hvaða umhverfismarkmiðum þau vilja ná.

 

 

EMAS

 EMAS er valfrjást umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækja sem var mótað fyrir tilstilli Evrópusambandsins.

Það sem helst einkennir EMAS er að þau fyrirtæki sem vinna samkvæmt kerfinu:
•    Starfa samkvæmt viðurkenndu og trúverðugu umhverfisstjórnunarkerfi
•    Setja og ná árlega markmiðum sem miða að fyrirtæki bæti sig í umhverfismálum

Á Íslandi hefur Umhverfisstofnun  eftirlit með skráningu í kerfið. Markmiðið með EMAS er að styðja við umhverfisumbætur hjá fyrirtækjum og iðnaði. Það er gert með því að fyrirtækin taka upp virka umhverfisstefnu og vinna að umhverfisverkefnum auk þess virkni kerfisins er tryggð með skipulögðum og óháðum úttektum á umhverfisstjórnunarkerfinu í heild.   

Lestu meira um EMAS á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Ekki umhverfismerki – hætta á grænþvotti

     

Þessi merki eru ekki umhverfismerki á nokkurn hátt en hönnun þeirra og notkun getur oft verið villandi. Merki sem er búin til að örvum sem vísa í hring er yfirleitt vísun í endurvinnslu. Til að mynda er græni hringurinn hér að ofan merki fyrir skilagjaldsskylda umbúðir í Þýskalandi og svarti þríhyrningurinn vísar í að varan sé búin til úr ákveðinni plasttegund (sjá flipa efst) og að hún sé endurvinnanleg. Hins vegar getur vara verið búin til úr afar eitraðri tegund af plasti PVC, sem losar skaðlegar klórsameindir út í náttúruna við niðurbrot, en það má vel búa til aðra PVC vöru úr henni með endurvinnslu. Varan er því ekki umhverfisvæn sem slík. Pandabjörninn hér að ofan er merki WWF (World Wildlife Fund) sem er ágætur sjóður en ef merkið er að finna á vöru þá þýðir það eingöngu að framleiðandi vörunnar hefur styrkt sjóðinn og segir ekkert til um umhverfislegt ágæti vörunnar eða framleiðslu hennar.

Ekki er óalgengt að rekast á loforð framleiðanda á umbúðum sinnar vöru um að hún sé umhverfisvæn, græn eða náttúruleg en þetta eru allt fullyrðingar sem erfitt er að skilgreina og enn erfiðara að færa rök fyrir. Slíkar yfirlýsingar mætti því flokka sem grænþvott og ættu neytendur að varast slíkt. Með því að velja vöru eða þjónustu með áreiðanlegum umhverfismerkjum, líkt og Svaninn eða Evrópublómið, geta neytendur verið vissir um að þeir eru að velja rétt.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira