Stök frétt

Síðustu fjögur ár hefur fyrsta helgin í október verið tileinkuð náttúruvernd undir slagorðinu "Græna Helgin" en helgin er kölluð "Big Green Weekend" á frummálinu. Umhverfisstofnun tók þátt í Grænu helginni fjórða árið í röð en stofnunin hefur skipulagt viðburði á friðlýstum svæðum á haustdögum síðan 2011, í tengslum við Grænu helgina. Umhverfisstofnun hefur það að markmiði að Græna helgin efli þátttöku heimafólks í sjálfboðaliðastarfi í þágu náttúruverndar. 

Umhverfisstofnun er þegar komin í samstarf við tvo framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, Menntaskólann við Hamrahlíð og Fjölbrautarskólann við Ármúla. Gefst nemendum skólanna tækifæri til að gerast sjálfboðaliðar og fá fyrir það einingar. Umhverfisstofnun skipuleggur verkefnin, sér um þjálfun sjálfboðaliða og fæði en sjálfboðaliðarnir vinna aðallega að göngustígagerð. 

Græna helgin var haldin þann 5. og 6. október síðastliðinn og tóku nemendur frá báðum skólunum þátt í henni í ár. Laugardaginn 5. október var fyrirhugað að vinna að framkvæmdum við Eldborg í Bláfjöllum. Búið er að sérsmíða keðjustíg sem setja á í bratta brekku svo göngufólk renni ekki til eða færi sig í nærliggjandi mosagróður. Þá er einnig búið að ferma möl og grjót á svæðið til að afmarka betur bílastæði og bera í göngustíg þar sem hafa myndast djúpar kvosir og pollar. Þá er fyrirhugað að stika leiðina í kringum fjallið Drottningu og tengja gönguleiðina á milli fjallsins og Eldborgar. Vegna afskaplega slæms veðurs tókst ekki að ljúka öllum framkvæmdum og þurftu verkefnastjórar og kennarar og sjálfboðaliðana hætta við verkefni vegna erfiðaðra vinnuaðstæðna. 

Það var tekinn viðsnúningur og allir sjálfboðaliðarnir, sextán talsins, fluttir yfir að Esjurótum þar sem þeir snæddu hádegisverð við mun betri veðurskilyrði. Að hádegishléi loknu var farið með sjálfboðaliðana í fræðsluferð upp Esju og þeim sýnd sú tækni sem sjálfboðaliðar UST notast við í göngustígagerð. Voru nemendur fræddir um það hvernig mat er gert á ástandi stíga og svo hvernig viðhaldi er háttað. 

Göngustígar á Esju hafa hlotið mikinn skaða í rigningum síðasta misseris og eru víða djúpar rákir eða jafnvel skurðir í þeim. Vegna þess mikla bratta sem einkennir Esjustíginn nær rigningavatnið mikilli ferð og ber með sér efni í leiðinni. Þess vegna er mikilvægt að stýra vatninu af stígnum með reglulegu millibili. Er það gert með drenum. Á sunnudeginum fengu sjálfboðaliðar frá MH að leggja dren úr grjóti og jafna út jarðefni þar sem djúpir skurðir höfðu myndast í stíginn. Þá hreinsuðu sjálfboðaliðarnir eldri dren sem höfðu fyllst af jarðvegi yfir sumarið. Má með sanni segja að miklu hafi verið komið í verk á stuttum tíma en sjálfboðaliðunum var skipt upp í tvö teymi sem unnu undir handleiðslu liðstjóra UST. 

Viðburðir sem þessir snúast ekki einungis um framkvæmdirnar. Þeirra helsti ávinningur er sú fræðsla og vitundarvakning sem nemendurnir hljóta með því að gerast sjálfboðaliðar í náttúruvernd. Umhverfisstofnun leggur áherslu á fræðslu bæði í verklagi og hugmyndafræði um göngustígagerð, sem og um sérstöðu einstakra náttúruverndar- og útivistarsvæða. 

Græna helgin í ár var því lærdómsrík, ekki síst fyrir skipuleggjendur sem þurftu að takast á við náttúruöflin, sem og fyrir þá nemendur sem tóku þátt í henni. Er það von Umhverfisstofnunar að frekara samstarf við framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins muni leiða af sér vitundarvakingu um þær fjölmörgu náttúruperlur sem leynast bæði innan og í nánd við Reykjavík. Með slíkri vitunarvakningu og auknum krafti í þátttöku heimafólks í sjálfboðaliðastarfi er hægt að hlúa enn betur að friðlýstum svæðum og útivistarperlum höfuðborgarsvæðisins.