Stök frétt

Fyrirtækjum sem markaðssetja tiltekin varnarefni þ.e. plöntuverndarvörur og nagdýraeitur sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni, ber árlega að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar um sölu á þessum vörum og kaupendur þeirra, en stofnunin nýtir þessar upplýsingar m.a. til að reikna út áhættuvísa vegna markaðssetningar á plöntuverndarvörum sem settir eru fram í Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031.

Stofnunin hefur nýverið lokið greiningu á þessum upplýsingum vegna ársins 2017. Þar kemur í ljós að sala á nagdýraeitri nam tæplega 10 tonnum árið 2017 og jókst umtalsvert milli ára eða um 94%. Aftur á móti varð samdráttur í sölu á plöntuverndarvörum til notkunar í atvinnuskyni um 47% og fór hún úr 5,9 tonnum 2016 niður í 3,1 tonn 2017. Meginástæðan fyrir þessum samdrætti í sölu á plöntuverndarvörum gæti verið sú að á árinu áður var mikil sala á nokkrum plöntuverndarvörum, einkum illgresiseyðum. Því er ljóst að notkun á nokkrum illgresiseyðum sem seldir voru á árinu 2016 féll einnig á árið 2017.

Sala upp á 3,1 tonn af plöntuverndarvörum samsvarar 1,1 tonnum af virku efni en í aðgerðaáætluninni er sett fram það markmið að salan eigi ekki að nema meiru en 2,4 tonnum af virku efni á ári. Það er því ljóst að salan á árinu 2017 er vel undir því markmiði.

Kaupendur og notendur varnarefna sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni þurfa að hafa gilt notendaleyfi frá Umhverfisstofnun og reyndust allir nema einn kaupandi að nagdýraeitri á árinu 2017 vera með slíkt leyfi í gildi þegar kaupin áttu sér stað. Hins vegar kom enn í ljós að nokkur stór hluti þeirra sem festu kaup á plöntuverndarvörum til notkunar í atvinnuskyni voru ekki með gilt notendaleyfi, þannig höfðu 36 kaupendur af 134 (27%) aldrei haft notendaleyfi eða önnur sambærileg leyfi þegar kaupin áttu sér stað og 10 kaupendur (7%) voru með útrunnið leyfi.

Umhverfisstofnun brást við þessum frávikum með því að fara fram á það við fyrirtækin sem um ræðir, að leggja fram áætlun um úrbætur til að tryggja að þau uppfylli skyldur sínar hvað þetta varðar og hafa þau nú brugðist við því að fullnægjandi hátt. Stofnunin mun áfram fylgja því eftir að fylgt sé settum reglum við markaðssetningu á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum til notkunar í atvinnuskyni.

Niðurstöðurnar úr þessu verkefni og öðrum eftirlitsverkefnum Umhverfisstofnunar með efnavörum má kynna sér nánar á heimasíðu stofnunarinnar.