Öll gögn sem koma fram á þessari síðu má sækja hérna.
Losun sem kemur frá flokknum landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eins og er. Það er ennþá takmörkuð þekking á þessum losunarflokki og vantar frekari rannsóknir á alþjóðavísu. Þar af leiðandi er óvissa í losunartölunum sem verið er að gera úrbætur á. Ísland getur talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF á móti losun frá öðrum geirum en það er að mjög takmörkuðu leyti.
Losun frá LULUCF hefur dregist saman lítillega á tímabilinu 1990-2019. Mest af losun frá LULUCF kemur frá graslendi og næst mest frá votlendi.
Mynd 1: Losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF) frá 1990 (kt CO2-ígildi).
Þegar landnotkun og skógrækt eru meðtalin var heildarlosun Íslands 13.794 kt CO2-íg. árið 2019 (án alþjóðaflugs/alþjóðasiglinga). Hún jókst um 7% á milli 1990 og 2019 og dróst saman um 1,0% frá 2018 til 2019. Mynd 2 sýnir sögulega losun eftir geirum með LULUCF.
Mynd 2: Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi með LULUCF frá 1990 (kt CO2-ígildi)